Áherslumál ríkisstjórnar

Þrátt fyrir góðan árangur síðustu ára og sterkan kaupmátt þá er margt sem má bæta. Hér kem ég inn á nokkur atriði:

1. Skuldir ríkissjóðs eru alltof háar. Það þarf að vera forgangsverkefni nr. 1 hjá ríkisstjórninni að greiða þær niður.
2. Málshraði Útlendingastofnunar og dómsstóla. Setja þarf aukna fjármuni í þessa málaflokka til að fjárfesta í tækjum og lausnum til þess að auka málshraða. Bið í 2 ár eftir úrlausn dvalarleyfis er ekki ásættanlegt. Tilkoma Landsrétts mun án efa styrkja dómskerfið. Álagið á Hæstarétti hefur verið gífurlegt frá 2008 og mun það án efa minnka hægt og rólega með komu Landsréttar. Þrátt fyrir það er nauðsynlegt að hraða málsmeðferð héraðsdómstóla verulega. Það má t.d. gera með nýju tölvukerfi. Óásættanlegt að dómarar séu að senda skjöl með leigubílum árið 2018.
3. Dreifing ferðamanna um landið. Ferðamenn eru nauðsynlegir fyrir áframhaldandi vöxt á Íslandi. Því er fjölgun þeirra jákvæð. Nauðsynlegt er þó að dreifa þeim úr landið. Það er m.a. gert með því að styrkja samgöngu- og vegakerfið um allt land, breyta regluverki til að búa til hvata fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni ásamt því að hrinda hindrunum úr vegi.
4. Stækka og selja Keflavíkurflugvöll. Það er löngu vitað að Keflavíkurflugvöllur er sprunginn. Nauðsynlegt er fyrir ríkið að selja hann til einkaaðila með fjármagn og vilja til þess að stækka hann verulega og búa til alþjóðlegan flugvöll.
5. Lýðheilsumál. Bæði líkamleg og andleg heilsa Íslendinga er orðin skelfileg með tilheyrandi kostnaði á heilbrigðiskerfið. Hvort sem fólk þjáist af andlegum veikindum, offitu, örorku eða öðru þá þarf markvissa aðgerðaráætlun til að koma þessu fólki til hjálpar. Ekki er nóg að vera með lækna sem taka móti fólki eftir 3 mánaða bið. Það þarf að útvega sjúkraþjálfara, sálfræðing, einkaþjálfara eða aðra sérfræðinga sem getur hjálpað þessu fólki strax. Kostnaðurinn við meðhöndlun af þessu tagi er lítilsháttar samanborið við framfærslu þessa hóps til lengri tíma. Þá er ekki tekið inn í myndina skylda samfélagsins og einstaklingsins að hjálpa öðrum.

Advertisements