Ómannúðleg meðferð á Sunnu

Nú hefur Sunna Elvíra verið í farbanni á Spáni í meira en tvær vikur. Hún er lömuð fyrir neðan brjóst og fær ekki þá umönnun sem hún þarf. Árangurslaust hefur verið að koma henni á annað sjúkrahús og það er víst ekki inn í myndinni að koma henni til Íslands. Upplýsingar um rannsóknina virðast vera af skornum skammti.

Nú er hún búin að vera með legusár í töluverðan tíma, en ekkert virðist gerast í þessu máli. Starfsmaður utanríkisráðuneytisins er kominn til Spánar og vonandi gerir eitthvað gagn.

Ég hef margar spurningar varðandi þetta mál.

  1. Ef Sunna hlýtur skaða af meðferð spænskra yfirvalda, er ríkið ekki skaðabótaskylt?
  2. Nú er Íslendingur beittur ómannúðlegri meðferð á Spáni og það virðist eins og ríkið geti ekki gert neitt! Af hverju beitir ríkið sér ekki? Erum við svona lítil þjóð og höfum ekkert að segja?
  3. Bæði Ísland og Spánn eru aðilar að Mannréttindasáttmála Evrópu og bundin af ákvæðum hans. Meðferðin á henni stenst klárlega ekki sáttmálann auk þess sem hún stenst ekki sáttmála SÞ um réttindi fatlaðra sem bæði Ísland og Spánn eru aðilar að. Getur Spánn brotið skuldbindingar sínar svona verulega og komist upp með það án þess að við segjum orð?
  4. Af hverju setja fréttmenn upplýsingar um eiginmann hennar í frétt um ástandið á henni? Í stað þess að fjalla aðeins um hræðilegu meðferðina sem hún er beitt, þá þarf að bæta við þeim vafasömu hlutum sem maðurinn hennar hefur gert. Það hjálpar á engan hátt.
  5. Ef Ísland myndi beita spænskum ríkisborgara sömu meðferð, væri Spánn ekki búinn að láta í sér heyra?
  6. Hvað með barnið? Mamman í farbanni á Spáni og pabbinn í gæsluvarðhaldi.

Ég skora á alla þá sem koma að þessu máli að beita sér harðar fyrir betri meðferð á henni. Þótt það væri ekki hægt að koma henni til Íslands, þá lágmarki koma henni á betra sjúkrahús!