Fundarstjórn forseta og Píratar

Nú á Alþingi eru í gangi umræður um fundarstjórn forseta. Þar eru rædd ummæli Þórhildar Sunnu þingmanns Pírata, sem hún lét eftir sig hafa í Silfrinu í gær. Þar ásakaði hún Ásmund Friðriksson um refsiverðan verknað. Segist hún hafa rökstuddan grun um að hann hafi framið brot sem varðar við hegningarlög. Eins mikið og hún er núna að reyna segja að þetta sé ekkert alvarlegt og hún sé bara að biðja um rannsókn, þá er svona ásökun gífurlega alvarleg!

Birgir Ármannson segir í pontu að ummæli þessi „fóru gjörsamlega út fyrir öll mörk“. Ég er 100% sammála því. Ef Þórhildur vill fá rannsókn á aksturskostnaðinum, þá biður hún um það á þinginu. Ekkert að því, ef hún hefur gögn sem styðja þessa fullyrðingu hennar, að biðja um rannsókn á því. En þá gerir hún það á þinginu í stað þess að gera það í fjölmiðlum.

Ég sé þetta sem pólitískan leik, gerðan til þess að skaða Sjálfstæðisflokkinn. Vandamálið við það er, að allar þessar ásakanir, skaða ekki bara xD heldur líka traust á stjórnmálum og Alþingi. Sem er smá kaldhæðnislegt, þar sem Píratar tala fyrir því að auka traust til þingsins. Að saka pólitíska keppinauta um misferli, í nafni réttlætis, er rangt. Það er ekki í nafni réttlætis heldur eigin hagsmuna. Sem er nákvæmlega það sem Píratar hafa fordæmt Sjálfstæðisflokkinn fyrir.

Logi Einarsson segir að traust almennings til Alþingis sé 22%. Spurning hvort allir flokkar þurfi ekki að taka sig saman og bæta úr þessu. Píratar meðtaldir.

Advertisements