Landsfundur 2018

Landsfundur 2018.

Þessi helgi hefur verið gífurlega skemmtileg. Það vill svo til að þetta er minn fyrsti landsfundur og eftirvæntingin því mikil. Litið til baka yfir helgina verð ég að segja að fundurinn stóðst allar mínar væntingar og meira en það.

Málefnastarfið hefur verið mjög áhugavert. Ungir sjálfstæðismenn (SUS) komu með yfir 100 breytingartillögur vegna ályktunar landsfundar og voru þar langflestar samþykktar, bæði óbreyttar eða með málamiðlun. Flestar þessar breytingartillögur sneru að því að auka frelsi einstaklingsins. Hér sá ég svart á hvítu að Sjálfstæðisflokkurinn hlustar á hugmyndir unga fólksins og tekur þeim fagnandi!

Forusta flokksins var kjörin. Þar var Bjarni kosinn formaður, Þórdís Kolbrún varaformaður og Áslaug Arna ritari. Öll hlutu þau yfirburðar kosningu sem lýsir bæði krafti þeirra sem og samheldninni innan flokksins. Ég er viss um að þessi þrjú muni leiða flokkinn til árangurs í komandi framtíð!

Í málefnanefndirnar hlutu konur mikinn meirihluta þeirra sæta sem voru í boði. Virkilega gaman að sjá kraftinn í öllum þessum flottu konum! Einnig fengu ungir Sjálfstæðismenn nokkra fulltrúa kjörna inn í flestar nefndir. Þetta kjör endurspeglar það traust sem Sjálfstæðisflokkurinn veitir bæði konum og ungu fólki. Þrátt fyrir háværar raddir heyrist af vinstri vænginum um það að konur hljóti ekki brautargengi innan flokksins

Ég sé mig knúinn til að minnast á pistilinn hans Braga á Stundinni. Af öllu því sem ég hef lesið á netinu, þá er þetta einn sá ógeðfyllsti pistill sem ég hef lesið. Jón Trausti, ritstjóri Stundarinnar, skýlir sér á bakvið það að þetta sé pistill en ekki frétt og því beri Stundin enga ábyrgð á því sem er skrifað í þessu. Það er mjög áhugavert þar sem Bragi er fyrrverandi fréttamaður miðilsins. Ætli siðanefnd blaðamannafélags Íslands muni taka þetta til athugunar?

Landsfundurinn sýnir sanna mynd Sjálfstæðisflokksins. Þar sem fólk af öllu landinu kemur saman, óháð stétt, aldri, kyni o.s.frv. til þess að ræða framtíð Íslands og hvernig við getum mótað hana. Þar sem ný vinasambönd verða til og eldri vinasambönd styrkjast. Þar sem þeir sem eldri eru deila visku sinni til þeirra sem yngri eru. Þar sem einstaklingar verða að einni heild, sem er sú stærsta og sterkasta sem stjórnmálin á Íslandi bjóða upp á.

Það sem ég mun taka út úr þessum fundi allra helst eru allar ánægjulegu stundirnar sem ég deildi með bæði gömlum sem og nýjum vinum!

Á myndinni hér að ofan má sjá mig, Björn Bjarnason, Kjartan Gunnarsson og Friðrik Sophusson.

 

Advertisements